Slagurinn um Meistaradeildarsæti (myndskeið)

Manchester United heimsækir Tottenham annað kvöld í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Deildin er loks hafin á ný eftir langt hlé en United var í vænlegri stöðu þegar stöðva þurfti mótið.

Undir stjórn Ole Gunnars Solskjær var United nýbúið að leggja nágrannana í Manchester City, 2:0, og situr það í 5. sæti með 45 stig, þremur stigum frá Chelsea í Meistaradeildarsæti þegar níu umferðir eru eftir. Tottenham er í 8. sæti með 41 stig og verða lærisveinar José Mourinho helst að vinna á morgun, til að blanda sér aftur almennilega í baráttuna.

„Ef ég væri Ole Gunnar Solskjær myndi ég segja við leikmenn mína: stærsta ógnin við okkur í baráttunni um efstu fjögur sætin er Tottenham,“ sagði Tim Sherwood, fyrrverandi leikmaður og þjálfari Tottenham, í upphitunarmyndbandi frá Símanum Sport sem má sjá í spilaranum hér að ofan.

„Ef þeir vilja ná fjórða sætinu er gríðarlega mikilvægt að vinna þennan leik,“ bætti Sherwood við um Tottenham. Liðið var búið að tapa tveimur af síðustu þremur deildarleikjum sínum fyrir hlé og hefur því vonandi nýtt tímann vel.

mbl.is