Menn geta verið heima í fýlu (myndskeið)

Nemanja Matic, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, var í áhugaverði viðtali við Bjarna Þór Viðarsson, lýsanda hjá Síminn Sport, í vikunni. Þar ræddi Matic meðal annars tímabil United en hann hefur verið í stóru hlutverki með liðinu upp á síðatastið og byrjað tólf leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

United heimsækir Brighton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en liðið þarf nauðsynlega á sigri að halda til þess að halda í við Wolves sem tyllti sér í fimmta sæti deildarinnar um síðustu helgi. United er með 49 stig í sjötta sætinu en getur jafnað Wolves að stigum með sigri í Brighton í kvöld.

„Það eru fimm til sex leikmenn sem geta spilað á miðsvæðinu hjá liðinu,“ sagði Nemanja Matic í samtali við Bjarna Þór. „Þeir eru allir heilir heilsu og mjög hæfileikaríkir í þokkabót þannig að samkeppnin er afar hörð um sæti í byrjunarliðinu. Það er svo undir stjóranum komið að setja saman besta liðið hverju sinni.

Við leikmenn sættum okkur við ákvörðun þjálfarans og hlutverk okkar er fyrst og fremst að leggja okkur 150% fram þegar að við fáum tækifæri inni á vellinum. Þegar að allt kemur til alls er það stjórinn sem ræður og ef menn eru ekki á eitt sáttir er alveg eins gott að vera bara heima hjá sér í fýlu,“ sagði Matic meðal annars.

Leikur Brighton og Manchester United verður í beinni útsendingu á Síminn Sport.

Nemanja Matic í leik með United á leiktíðinni.
Nemanja Matic í leik með United á leiktíðinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert