Mun uppskera ávöxt erfiðis síns

Marcus Rashford skorar hér af vítapunktinum gegn Bournemouth. Það er …
Marcus Rashford skorar hér af vítapunktinum gegn Bournemouth. Það er eina mark hans fyrir United í síðustu leikjum. AFP

Knattspyrnumaðurinn Bruno Fernandes hefur stappað stálinu í samherja sinn Marcus Rashford og segist fullviss um að framherjinn muni fá ávöxt erfiðis síns áður en yfir líkur.

Manchester United hefur verið á miklu flugi undanfarið með Fernandes í fararbroddi en liðið hefur unnið fjóra leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni, alla með þriggja marka mun. Portúgalinn hefur fengið mikla hylli fyrir frammistöðu sína og var valinn leikmaður júnímánaðar á dögunum enda skorað fimm mörk og lagt upp þrjú síðan keppni hófst aftur eftir kórónuhléið. Þá hefur táningurinn Mason Greenwood einnig verið lofsunginn enda skorað fjögur mörk og lagt upp eitt í síðustu leikjum og að lokum hefur Anthony Martial gengið í endurnýjun lífdaganna; Frakkinn er búinn að skora fjögur og leggja upp þrjú.

Rashford hefur á sama tíma aðeins fallið í skuggann á samherjum sínum. Englendingurinn ungi meiddist illa á baki í janúar og hefur ekki fundið sitt besta form undanfarið. Honum hefur tekist að leggja upp tvö mörk en aðeins skora eitt og það úr vítaspyrnu, síðan deildin hófst aftur. 

„Það tala allir um að Rashford er ekki að skora en hann er frábær. Þó hann skori ekki gerir hann ótrúlega mikið fyrir liðið, fótbolti snýst ekki bara um mörk og stoðsendingar. Engu að síður mun hann skora og leggja upp helling í framtíðinni,“ sagði Fernandes um samherja sinn í viðtali sem birtist á heimasíðu United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert