Stærsta stundin í 133 ára sögu félagsins

Gareth Ainsworth knattspyrnustjóri Wycombe Wanderers lyftir bikarnum á Wembley í …
Gareth Ainsworth knattspyrnustjóri Wycombe Wanderers lyftir bikarnum á Wembley í gærkvöld. Ljósmynd/@wwfcofficial

Eftir 133 ára baráttu hefur Wycombe Wanderers loksins tekist að vinna sér sæti í ensku B-deildinni í knattspyrnu.

Wycombe sigraði Oxford United 2:1 í úrslitaleik umspils C-deildarinnar á Wembley í gærkvöld og fylgir þar með Coventry og Rotherham upp í B-deildina en þau tvö lið voru í toppsætunum þegar keppni var hætt í marsmánuði.

Umspilið var leikið nú í júlí og þar höfðu Wycombe og Oxford fyrst betur gegn Fleetwood og Portsmouth í undanúrslitum.

Í gærkvöld hafði Wycombe síðan betur á Wembley þar sem Joe Jacobson skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 79. mínútu.

Wycombe er frá markaðsbænum High Wycombe, tæplega 50 kílómetra norðvestur af London og segja má að leikurinn í gærkvöld hafi verið grannaslagur en aðeins eru 37 kílómetrar frá High Wycombe til háskólaborgarinnar Oxford.

Félagið Wycombe Wanderers var stofnað árið 1887 og hefur leikið lengst af í utandeildunum en vann sér sæti í deildakeppninni árið 1993 og hefur verið í C- og D-deildunum frá þeim tíma. 

Þekktasti leikmaður liðsins er framherjinn Adebayo Akinfenwa sem hefur verið kallaður sterkasti fótboltamaður Englands en hann er kraftalegur og í ágætum holdum, orðinn 38 ára gamall, en skoraði samt 10 mörk í 32 leikjum í deildinni í vetur og hefur samtals gert 200 mörk í 628 deildaleikjum á ferlinum.

Þá kannast sumir á Fljótsdalshéraði við markvörð liðsins, Ryan Allsop, en hann varði mark Hattar í 1. deildinni hálft tímabilið 2012, eftir að hafa verið í röðum WBA og Millwall árin tvö þar á undan.

Knattspyrnustjóri Wycombe er Gareth Ainsworth sem er 47 ára gamall og átti um 20 ára feril sem leikmaður, lengst með QPR en hefur verið stjóri Wycombe í átta ár og var spilandi fyrstu tvö árin sjálfur.

mbl.is