Launahæsti leikmaðurinn ekki á Wembley

Mesut Özil kom til Arsenal árið 2013.
Mesut Özil kom til Arsenal árið 2013. AFP

Mesut Özil, launahæsti leikmaður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Arsenal, er staddur í Tyrklandi og því fjarri góðu gamni þegar lið hans mætir Chelsea í úrslitum enska bikarsins á Wembley klukkan 16:30 í dag.

Özil fær um 350 þúsund pund í vikulaun eða um 62 milljónir króna en hann hefur ekki spilað eina einustu mínútu fyrir skytturnar síðan keppnistímabilið hófst aftur í júní eftir hlé vegna kórónuveirunnar.

Miðjumaðurinn er 31 árs og á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Arsenal en Mikel Arteta, stjóri liðsins, hefur lítið viljað tjá sig um leikmanninn. Honum var hins vegar gefið leyfi af félaginu til að vera ekki viðstaddur leikinn í dag og hefur Özil ferðast til Tyrklands, en þangað á hann ættir að rekja.

mbl.is