Pogba skyndilega tilbúinn að semja

Paul Pogba í leik Manchester United gegn FC Köbenhavn í …
Paul Pogba í leik Manchester United gegn FC Köbenhavn í vikunni. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester United, er tilbúinn að hefja samningsviðræður við félagið þegar liðið hefur lokið keppni í Evrópudeildinni. United mætir Sevilla í undanúrslitum á sunnudaginn.

Paul Pogba hefur gegnt veigamiklu hlutverki í góðu gengi Manchester-liðsins undanfarnar vikur en hann missti af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla. Þá hefur verið þrálátur orðrómur um að Frakkinn sé á förum frá félaginu síðan í fyrra og tjáði Pogba sjálfur fjölmiðlum að hann hefði áhuga á nýrri áskorun síðasta sumar.

Nú virðist staðan önnur og samkvæmt heimildum Sky Sports býr Frakkinn sig undir að ræða nýjan samning við félagið á næstu vikum. Hans núverandi samningur rennur út eftir eitt ár en United getur þó tekið einhliða ákvörðun um að lengja samninginn um eitt ár. Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, hefur áður sagst vilja halda leikmanninum.

mbl.is