Krísufundur með Klopp

Jürgen Klopp og Georginio Wijnaldum munu funda saman þegar sá …
Jürgen Klopp og Georginio Wijnaldum munu funda saman þegar sá síðarnefndi snýr aftur til Englands. AFP

Georginio Wijnaldum, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verður samningslaus næsta sumar en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning á Anfield.

Barcelona hefur mikinn áhuga á leikmanninum en Ronald Koeman, hans fyrrverandi þjálfari hjá hollenska landsliðinu, var ráðinn þjálfari Barcelona á dögunum.

Wijnaldum vill komast burt frá Liverpool samkvæmt enskum fjölmiðlum en Liverpool er ekki tilbúið að sleppa honum fyrir minna en 20 milljónir punda.

Hollenski miðjumaðurinn, sem er 29 ára gamall, hefur nú þegar náð samkomulagi við Barcelona um kaup og kjör.

Mirror greinir frá því í dag að Wijnaldum hafi óskað eftir krísufundi með Klopp á næstu dögum en leikmaðurinn er nú staddur í landsliðsverkefni með Hollandi.

Wijnaldum er sagður ætla að fara fram á sölu frá félaginu þar sem hann vilji komast til Barcelona en Thiago Alcantara, miðjumaður Bayern München, er sagður líklegastur til þess að fylla skarð Wijnaldum ef hann fer.

mbl.is