Mikið áfall fyrir efsta liðið

Wilfred Ndidi spilar ekki næstu mánuðina.
Wilfred Ndidi spilar ekki næstu mánuðina. AFP

Enska knattspyrnuliðið Leicester City hefur orðið fyrir talsverðu áfalli því nú er ljóst að miðjumaðurinn öflugi Wilfred Ndidi verður frá keppni næstu þrjá mánuðina eða svo.

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri staðfesti þetta í dag en Ndidi, sem er 23 ára nígerískur landsliðsmaður, er algjör lykilmaður á miðjunni hjá liðinu. Hann þarf að fara í uppskurð vegna nárameiðsla.

„Hann var slæmur undir lok síðasta tímabils og þetta tók sig aftur upp undir lok leiksins  gegn Burnley á sunnudaginn. Ég er viss um að þetta gengur allt vel en það fer ekki á milli mála að hann skilur eftir sig skarð í liðinu," sagði Rodgers.

Hinsvegar gæti miðvörðurinn reyndi Jonny Evans komið inn í liðið á ný eftir að hafa glímt við nárameiðsli. Demarai Gray verður ekki með gegn City vegna veikinda en Rodgers tók fram að það hefði ekkert með kórónuveiruna að gera.

Leicester hefur byrjað tímabilið vel og er með sex stig eftir tvo fyrstu leikina og markatöluna 8:2. Liðið á heldur betur stórt verkefni fyrir höndum á sunnudaginn en þá heimsækir það Manchester City.

mbl.is