Á sama stað og skærustu stjörnur Liverpool

Son Heung-Min er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu með …
Son Heung-Min er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu með átta mörk. AFP

Son Heung-Min reyndist hetja Tottenham þegar liðið heimsótti Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Turf Moor í Burnley í gær.

Son skoraði sigurmark leiksins á 76. mínútu í 1:0-sigri Tottenham en markið skoraði hann eftir sendingu frá Harry Kane.

Suðurkóreski framherjinn hefur byrjað tímabilið af miklum krafti en hann hefur skorað átta mörk í sex fyrstu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og sérfræðingur hjá Sky Sports, segir að Son fái ekki alltaf það hrós sem hann á skilið.

„Fyrir mér er Son einn allra vanmetnasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Neville eftir leik gærdagsins.

„Hann fær ekki sama hrós og aðrir sem eru í sérflokki í deildinni. Hann er frábær leikmaður og hann tekur alltaf réttu hlaupin. Það væri hreinasta martröð að spila á móti honum.

Raheem Sterling og stórstjörnur Liverpool, þeir Sadio Mané og Mohamed Salah, fá allir mikið umtal en fyrir mér er Son á sama stað og þeir.

Ef hann spilaði fyrir Manchester City eða Liverpool þá væri hann að gera það sama og þessir leikmenn gera fyrir sín lið,“ bætti Neville við.

mbl.is