Á sama stað og skærustu stjörnur Liverpool

Son Heung-Min er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu með …
Son Heung-Min er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu með átta mörk. AFP

Son Heung-Min reyndist hetja Tottenham þegar liðið heimsótti Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Turf Moor í Burnley í gær.

Son skoraði sigurmark leiksins á 76. mínútu í 1:0-sigri Tottenham en markið skoraði hann eftir sendingu frá Harry Kane.

Suðurkóreski framherjinn hefur byrjað tímabilið af miklum krafti en hann hefur skorað átta mörk í sex fyrstu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og sérfræðingur hjá Sky Sports, segir að Son fái ekki alltaf það hrós sem hann á skilið.

„Fyrir mér er Son einn allra vanmetnasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Neville eftir leik gærdagsins.

„Hann fær ekki sama hrós og aðrir sem eru í sérflokki í deildinni. Hann er frábær leikmaður og hann tekur alltaf réttu hlaupin. Það væri hreinasta martröð að spila á móti honum.

Raheem Sterling og stórstjörnur Liverpool, þeir Sadio Mané og Mohamed Salah, fá allir mikið umtal en fyrir mér er Son á sama stað og þeir.

Ef hann spilaði fyrir Manchester City eða Liverpool þá væri hann að gera það sama og þessir leikmenn gera fyrir sín lið,“ bætti Neville við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert