Liverpool blandar sér í baráttuna um Skagamanninn

Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U21-árs landsliðinu á dögunum.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U21-árs landsliðinu á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Englandsmeistarar Liverpool hafa blandað sér í baráttuna um knattspyrnumanninn Ísak Bergmann Jóhannesson sem leikur með úrvalsdeildarliði Norrköping í Svíþjóð en það er Expressen sem greinir frá þessu.

Ísak hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína í Svíþjóð á þessari leiktíð en hann er orðinn fastamaður í liði Norrköping þrátt fyrir að vera einungis 17 ára gamall.

Þjálfari og yfirnjósnari Norrköping hafa báðir staðfest að stærstu lið séu að fylgjast með leikmanninum en þar ber hæst félög á borð við Juventus og Manchester United.

Samkvæmt heimildum Expressen sendi Liverpool njósnara sinn í Skandinavíu, Mads Jörgensen, til þess að fylgjast með leikmanninum í 2:2-jafntefli Norrköping og AIK í sænsku úrvalsdeildinni á dögunum.

Ísak hefur sjálfur sagt að áhugi stórliða trufli sig ekki en hann ætlar að ná sér almennilega á strik með Norrköping áður en hann tekur næsta skref á sínum ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert