Vongóðir um að hann snúi aftur í vor

Joe Gomez verður eitthvað frá.
Joe Gomez verður eitthvað frá. AFP

Innan herbúða Englandsmeistara Liverpool eru menn vongóðir um að Joe Gomez geti tekið þátt í leikjum liðsins áður en tímabilinu lýkur en varnarmaðurinn meiddist alvarlega á hné á æfingu með enska landsliðinu í gær.

Óttast er að meiðslin séu alvarleg en læknar landsliðsins telja þó að þau séu ekki jafn slæm og í fyrstu var haldið. Ekki liggja fyrir endanlegar niðurstöður úr myndatökum sem Gomez fór í. Samkvæmt heimildum Sky telja læknar Liverpool að hann geti byrjað að spila aftur snemma næsta vor og þá ætti hann að geta tekið þátt á Evrópumeistaramótinu næsta sumar með Englandi.

Engu að síður eru þetta slæmar fréttir fyrir Liverpool sem missti einnig varnarmanninn Virgil van Dijk nýlega vegna alvarlegra hnémeiðsla.

mbl.is