Ekkert fararsnið á Guardiola

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur skrifað undir nýjan samning og er hann þá samningsbundinn félaginu fram á sumarið 2023. 

Félagið tilkynnti þetta í dag en Guardiola kom til Manchester árið 2016. Hefur liðið tvívegis unnið deildina undir hans stjórn og hefur einnig unnið báðar bikarkeppninnar ensku. 

Guardiola kann greinilega vel við sig hjá City en hann hefur nú þegar verið lengur við stjórnvölinn hjá félaginu en hjá Barcelona og Bayern München þar sem Guardiola starfaði áður. Ferill hans sem knattspyrnustjóri hjá aðalliði hófst sumarið 2008 og stýrði hann þá Eiði Smára Guðjohnsen hjá Barcelona. 

Þessi tíðindi eru athyglisverð í ljósi þess að Guardiola hefur stundum þótt ganga nærri sér í starfi þar sem hann er mjög ákafur og hefur mikla ástríðu fyrir íþróttinni. Þegar hann yfirgaf Barcelona þá var það til að mynda vegna þess að hann þurfti á fríi að halda og óskaði sjálfur eftir því að hætta. Um þetta atriði hefur verið fjallað af blaðamönnum sem fylgjast vel með Guardiola. Ef til vill hefur Guardiola lært betur að höndla álagið en áður miðað við hversu lengi hann ætlar sér að vera hjá Manchester City. 

mbl.is