Framherji Liverpool á óskalista Úlfanna

Divock Origi hefur ekki fengið mörg tækifæri með Liverpool á …
Divock Origi hefur ekki fengið mörg tækifæri með Liverpool á tímabilinu. AFP

Divock Origi, sóknarmaður Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, er eftirsóttur þessa dagana en hann hefur ekki átt fast sæti í liðinu undanfarin ár.

Sportsmail greinir frá því að Wolves hafi mikinn áhuga á Belganum sem er aðeins 25 ára gamall en hann gekk til liðs við Liverpool frá Lille sumarið 2014.

Raúl Jiménez, framherji Wolves, verður frá næstu mánuðina vegna höfuðkúpubrots og félagið er því á höttunum eftir nýjum sóknarmanni.

Origi skrifaði undir nýjan samning við Liverpool á síðasta ári og er samningsbundinn félaginu til sumarsins 2024.

Hann hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en í bæði skiptin hefur hann komið inn á sem varamaður.

Alls hefur hann skorað 35 mörk í 147 leikjum fyrir félagið en Liverpool vill fá í kringum 25 milljónir punda fyrir leikmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert