Mun betri horfur en um helgina

Gabriel Martinelli.
Gabriel Martinelli. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að meiðslin sem brasilíski sóknarmaðurinn Gabriel Martinelli varð fyrir í upphitun fyrir bikarleikinn gegn Newcastle á laugardaginn virðist ekki hafa verið eins slæm og óttast hefði verið.

Talið var að Martinelli yrði lengi frá keppni vegna ökklameiðsla en hann missti af stórum hluta síðasta árs eftir alvarleg meiðsli á hné.

Arteta sagði á fréttamannafundi í dag að horfurnar væru miklu betri en um helgina en beðið væri eftir niðurstöðu úr myndatökum. 

Arsenal tekur á móti Crystal Palace í úrvalsdeildinni á fimmtudagskvöldið og Arteta staðfesti að miðjumaðurinn Thomas Partey væri klár í slaginn fyrir þann leik eftir mánaðar fjarveru vegna meiðsla. Einnig væri mögulegt að miðvörðurinn Gabriel Magalhaes gæti tekið þátt í þeim leik.

mbl.is