Skrifaði undir langtímasamning við Arsenal

Rob Holding hefur byrjað þrettán leiki í ensku úrvalsdeildinni á …
Rob Holding hefur byrjað þrettán leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Varnarmaðurinn Rob Holding hefur framlengt samning sinn við enska knattspyrnufélagið Arsenal.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum en samningurinn gildir út tímabilið 2024 og er til næstu þriggja ára, með möguleika á árs framlengingu.

Miðvörðurinn, sem er 25 ára gamall, gekk til liðs við Arsenal frá Bolton árið 2016 en úrvalsdeildarfélagið borgaði tvær milljónir punda fyrir Holding.

Holding hefur fengið aukin tækifæri í liðinu eftir að Mikel Arteta tók við stjórnartaumunum hjá Arsenal en varnarmaðurinn hefur meðal annars borið fyrirliðabandið á tímabilinu í fjarveru Pierre-Emerick Aubameyang.

Holding á að baki 96 leiki fyrir Arsenal en hann er uppalinn hjá Bolton og lék sinn fyrsta leik fyrir félagið árið 2014.

mbl.is