Rúnar á lista yfir verstu kaup Arsenal

Rúnar Alex Rúnarsson gekk til liðs við Arsenal í september …
Rúnar Alex Rúnarsson gekk til liðs við Arsenal í september á síðasta ári. AFP

Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er í níunda sæti á lista Sportsmail yfir verstu kaup enska knattspyrnufélagsins Arsenal frá upphafi.

Rúnar Alex gekk til liðs við Arsenal frá franska 1. deildarfélaginu Dijon í september á síðasta ári en enska félagið borgaði 1,5 milljónir punda fyrir Rúnar Alex.

Hann hefur ekki náð sér á strik í London og hefur aðeins byrjað fimm leiki fyrir Arsenal í öllum keppnum síðan hann samdi við enska félagið.

Hans síðasti byrjunarliðsleikur kom gegn Manchester City í undanúrslitum enska deildabikarsins, 22. desember, en þar gerði hann sig sekan um slæm mistök og hefur hann ekki spilað síðan.

„Rúnar Alex hefur ekki verið sannfærandi sem varamaður Bernd Leno,“ segir í umfjöllun Sportsmail.

„Hann gerði sig sekan um nokkur slæm mistök í leik Arsenal og City í undanúrslitum deildabikarsins og stuðningsmenn Arsenal hafa áhyggjur af því, hvað muni gerast, ef Leno meiðist.

Hafa ber í huga að Rúnar var keyptur sem þriðji valkostur í markið og bundu forráðamenn félagsins vonir við það að leikmaðurinn myndi bæta sig hægt og rólega. 

Arsenal þarf nauðsynlega á varamarkverði að halda en það má ekki dæma Rúnar of hart enda ennþá ungur og hann er að stíga sín fyrstu skref hjá Arsenal,“ segir ennfremur í umfjöllun Sportsmail.

Suður-kóreski sóknarmaðurinn Park Chu-Young er í efsta sæti Sportsmail yfir verstu kaup Arsenal en menn eins og Sebastian Squillaci, Francis Jeffers, Kim Kallström, Denis Suárez og Yaya Sanogo eru einnig á lista.

mbl.is