Starfið undir hjá Lampard í kvöld?

Frank Lampard hefur verið í vandræðum í undanförnum leikjum Chelsea.
Frank Lampard hefur verið í vandræðum í undanförnum leikjum Chelsea. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea á Englandi, gæti misst starfið ef lið hans tapar gegn Leicester á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Það er talkSport sem greinir frá þessu en gengi Chelsea, undanfarnar vikur, hefur verið langt undir væntingum.

Liðið rétt marði Fulham, 1:0, í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni hinn 16. janúar síðastliðinn en fram að þeim leik hafði liðið aðeins unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum og tapað fjórum þeirra.

Chelsea var í harðri toppbaráttu fyrir jól en eftir dapurt gengi í undanförnum leikjum er liðið í sjöunda sæti með 29 stig, 8 stigum minna en topplið Manchester United.

Lampard, sem er 42 ára gamall, tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea sumarið 2019 og kom liðinu í Meistaradeild Evrópu á sínu fyrsta tímabili með liðið.

Hann eyddi í kringum 250 milljónum punda síðasta sumar í nýjan leikmenn en honum hefur ekki tekist að ná því besta út úr stærstu stjörnum liðsins.

mbl.is