Landsliðsmarkvörður Ástralíu til Arsenal

Mat Ryan er genginn til liðs við Arsenal frá Brighton.
Mat Ryan er genginn til liðs við Arsenal frá Brighton. Ljósmynd/@Arsenal

Markvörðurinn Mat Ryan er genginn til liðs við enska knattspyrnufélagið Arsenal á láni frá úrvalsdeildarliði Brighton og mun hann leika með Arsenal út tímabilið.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en honum er ætlað að berjast við Bernd Leno um markvarðastöðuna hjá liðinu.

Ryan, sem er 28 ára gamall, er reynslumikill markvörður en hann gekk til liðs við Brighton frá Valencia sumarið 2017.

Þá á hann að baki 59 landsleiki fyrir landslið Ástralíu og 123 leiki fyrir Brighton í öllum keppnum.

Ryan lék alla 38 leiki Brighton á síðustu leiktíð en hefur leikið ellefu leiki með liðinu á yfirstandandi keppnistímabili.

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmaður Íslands, er samningsbundinn Arsenal en hann hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu.

Eftir að Ryan skrifaði undir hjá Arsenal verður að teljast líklegt að Rúnar Alex verði lánaður en hann hefur verið orðaður við lið í ensku B-deildinni.

mbl.is