Pirraður á liðsfélögum sínum?

Bruno Fernandes hefur verið besti leikmaður United síðan hann gekk …
Bruno Fernandes hefur verið besti leikmaður United síðan hann gekk til liðs við félagið í janúar 2020. AFP

Ian Wright, fyrrverandi leikmaður Arsenal og sparkspekingur hjá Sky Sports, segist skynja mikinn pirring hjá Bruno Fernandes, miðjumanni Manchester United, þessa dagana.

Fernandes, sem er 26 ára gamall, gekk til liðs við United frá Sporting í Portúgal í janúar 2020 fyrir 68 milljónir punda.

Hann hefur slegið í gegn með United og verið besti leikmaður liðsins síðan hann kom en Fernandes hefur skorað 15 mörk og lagt upp önnur 10 fyrir liðsfélaga sína í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

„Það er mín upplifin, þegar ég horfi á Bruno Fernandes spila fótbolta, að hann sé pirraður á liðsfélögum sínum,“ sagði Wright í hlaðvarpsþætti sínum.

„Ég vona að fólk mistúlki ekki orð mín og snúi þessu upp í að ég sé að reyna grafa undan leikmanninum. 

Hann er augljóslega leiðtoginn í liði Manchester United og hann er fljótur að pirrast út í liðsfélaga þegar illa gengur.

Dennis Bergkamp var leiðtogi í Arsenal-liðinu á sínum tíma en maður varð aldrei var við neinn pirring hjá honum í garð liðsfélaga sinna.

Líkamstjáning Fernandes er oft á þann veg að hann sé pirraður sem gæti dregið úr félögum hans,“ bætti Wright við.

mbl.is