Ekki allt að óskum - þrír í bann hjá United

Bruno Fernandes skorar seinna mark Manchester United í Granada úr …
Bruno Fernandes skorar seinna mark Manchester United í Granada úr vítaspyrnu. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði eftir útisigurinn á Granada í Evrópudeildinni í kvöld, 2:0, að þrátt fyrir úrslitin hefði ekki allt farið að óskum í leiknum.

„Þetta var ekki fullkomið kvöld. Við fengum þrjú gul spjöld og leikbönn í kjölfarið en það er mjög gott að vinna 2:0. Við vitum hversu erfitt er að fara til Spánar og sigra á þennan hátt og ég er mjög ánægður með úrslitin,“ sagði Solskjær við BT Sport.

Þeir Scott McTominay, Harry Maguire og Luke Shaw verða allir í banni í seinni leiknum á Old  Trafford næsta fimmtudagskvöld en enska liðið er eftir sem áður í afar góðri stöðu.

Solskjær var sérstaklega ánægður með markaskorarana Marcus Rashford og Bruno Fernandes. „Marcus og Bruno hafa verið frábærir og eru okkur gríðarlega mikilvægir. Fyrra markið kom eftir gott hlaup hjá Marcusi, hann tók frábærlega við boltanum og afgreiddi hann vel, og Bruno er svo öruggur í vítaspyrnunum.

Við viljum vinna alla fótboltaleiki. Lið okkar er enn ungt og er að læra og við þurfum stöðugt að bæta við okkur. Ef þú slakar á er það fljótt að koma aftan að þér. Við getum ekki nálgast seinni leikinn á neinn annan hátt en að sækja og reyna að skora mörk,“ sagði Solskjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert