Framlengir við Liverpool

Adrián verður áfram hjá Liverpool.
Adrián verður áfram hjá Liverpool. AFP

Adrián, varamarkvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur framlengt samning sinn og leikur því áfram með félaginu á næsta tímabili.

Samningur hins spænska Adríans, sem kom á frjálsri sölu frá West Ham United sumarið 2019, var að renna út í lok þessa mánaðar.

Ekki kemur fram hversu langur hinn nýi samningur er en hann er þó að minnsta kosti til eins árs.

„Ég er í skýjunum, ég er mjög glaður með að vera áfram hjá félaginu. Fyrir það fyrsta er það vegna þess að það eru verðlaun frá félaginu vegna þess hversu hart ég hef lagt að mér síðan ég kom hingað fyrir tveimur árum. Ég er mjög þakklátur fyrir trúna sem félagið, stjórinn og allir hinir sem komu að þessari ákvörðun sýna mér.

Einnig, og öðru fremur, er ánægjulegt að vera áfram hjá Liverpool. Þetta er svo stórt félag. Svo er þetta líka fjölskylduklúbbur, það er mjög sérstakt fyrir hvaða leikmann sem er að vera hér áfram. Þetta eru forréttindi,“ sagði Adrían í samtali við opinbera heimasíðu Liverpool.

mbl.is