Sneri aftur eftir höfuðkúpubrot

Raúl Jiménez er snúinn aftur á knattspyrnuvöllinn.
Raúl Jiménez er snúinn aftur á knattspyrnuvöllinn. AFP

Þau gleðitíðindi bárust af mexíkóska sóknarmanninum Raúl Jiménez í dag að hann var í byrjunarliði Wolverhampton Wanderers í vináttuleik gegn Crewe Alexandra.

Raúl höfuðkúpubrotnaði í leik Úlfanna gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni fyrir átta mánuðum, eða 230 dögum, og fyrst um sinn var ekki ljóst hvort að hann myndi geta spilað knattspyrnu aftur.

Hann gekkst undir aðgerð vegna brotsins og þó að læknar hafi komist að þeirri niðurstöðu að Raúl hafi ekki beðið varanlegan heilaskaða mun hann þurfa að spila með öryggishjálm það sem eftir lifir leikmannaferils hans.

Gleðitíðindin eru þó vitanlega þau að hann getur haldið áfram að leika knattspyrnu á hæsta stigi, en Raúl hefur skorað 48 mörk í 110 leikjum í öllum keppnum fyrir Úlfana, þar af 34 mörk í 86 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is