Vieira vill leikmann Arsenal

Reiss Nelson skorar fyrir Arsenal gegn Liverpool.
Reiss Nelson skorar fyrir Arsenal gegn Liverpool. AFP

Reiss Nelson, knattspyrnumaður hjá Arsenal, gæti gengið í raðir Crystal Palace að láni út þessa leiktíð. Nelson er 21 árs kantmaður og er Patrick Vieira, fyrrverandi fyrirliði Arsenal og núverandi stjóri Palace, hrifinn af leikmanninum.

Vieira vonast til að gott samband hans við Arsenal geri honum auðveldara að klófesta Nelson, sem er uppalinn hjá Arsenal. Hann lék með Hoffenheim í Þýskalandi að láni tímabilið 2018/19 og skoraði sjö mörk í 23 leikjum í þýsku 1. deildinni.

Hann hefur leikið 22 leiki með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim eitt mark. Þá hefur hann einnig leikið með öllum yngri landsliðum Englands. Vieira tók við Crystal Palace af Roy Hodgson eftir síðustu leiktíð.

mbl.is