Fá leyfi til að spila um helgina

Raúl Jiménez fær að spila um helgina.
Raúl Jiménez fær að spila um helgina. AFP

Mexíkóski sóknarmaðurinn Raúl Jiménez og sóknartengiliðurinn Miguel Almirón frá Paragvæ hafa fengið leyfi frá knattspyrnusamböndum þjóða sinna til þess að taka þátt í leikjum liða sinna í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Enska úrvalsdeildin hleypti 11 leikmönnum frá Suður- og Mið-Ameríku á mála hjá liðum í deildinni ekki í landsliðsverkefni með þjóðum sínum í byrjun þessa mánaðar. Ástæðan fyrir því voru fyrirséð ferðalög til rauðmerktra landa í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Við endurkomu til Englands hefðu þessir leikmenn þurft að fara beint í 10 daga einangrun.

Knattspyrnusambönd Brasilíu, Mexíkó, Paragvæ og Síle gripu þó til þess ráðs að nýta sér reglu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem kveður á um að þau geti krafist þess að leikmenn spili ekki fyrir félagslið sín í fimm daga eftir að landsleikjahléi lýkur.

Brasilíumennirnir Alisson, Fabinho og Roberto Firmino hjá Liverpool, Gabriel Jesus og Ederson hjá Manchester City, Thiago Silva hjá Chelsea, Fred hjá Manchester United og Raphinha hjá Leeds United munu að óbreyttu ekki fá að spila með liðum sínum um helgina ef brasilíska knattspyrnusambandið lætur ekki af þessari kröfu sinni.

Auk Brasilíumannanna átta ákvað Knattspyrnusamband Síle að meina Francisco Sierralta, leikmanni Watford, að spila um helgina.

Sem áður segir hafa knattspyrnusambönd Mexíkó og Paragvæ hins vegar gefið grænt ljós á að Raúl spili með Wolverhampton Wanderers og Almirón spili með Newcastle United.

mbl.is