West Ham vann á Old Trafford

Manuel Lanzini sendir boltann í mark Manchester United á Old …
Manuel Lanzini sendir boltann í mark Manchester United á Old Trafford í kvöld án þess að Dean Henderson markvörður fái rönd við reist. AFP

Manchester United féll í kvöld út úr enska deildabikarnum í knattspyrnu þegar liðið tapaði 0:1 fyrir West Ham á heimavelli sínum, Old Trafford, í þriðju umferð keppninnar.

Manuel Lanzini skoraði strax á níundu mínútu og það reyndist sigurmarkið.

Arsenal var ekki í teljandi vandræðum með C-deildarlið Wimbledon og sigraði 3:0. Alexandre Lacazette skoraði úr vítaspyrnu snemma leiks og þeir Emile Smith-Rowe og Edward Nketiah bættu við mörkum í seinni hálfleiknum.

Leicester vann Millwall 2:0 á útivelli þar sem Ademola Lookman og Kelechi Iheanacho skoruðu í seinni hálfleiknum. Jón Daði Böðvarsson sat á varamannabekk Millwall allan tímann.

Brighton vann Swansea, 2:0, þar sem Aaron Connolly skoraði tvívegis í fyrri hálfleiknum.

Viðureignir Chelsea - Aston Villa og Wolves - Tottenham fara í vítaspyrnukeppni en þar var staðan 1:1 og 2:2  eftir venjulegan leiktíma.

mbl.is