Erfitt að eiga við þessa menn og þennan stjóra

Pep Guardiola fylgist með af hliðarlínunni á Anfield í dag.
Pep Guardiola fylgist með af hliðarlínunni á Anfield í dag. AFP

„Þvílíkur leikur,“ var það fyrsta sem Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City sagði eftir viðureign liðsins gegn Liverpool á Anfield í dag þar sem lokatölurnar urðu 2:2 eftir fjögurra marka magnaðan síðari hálfleik.

„Þetta er ástæðan fyrir því að Manchester City og Liverpool eru alltaf í toppbaráttunni á síðustu árum. Því miður náðum við ekki að sigra, en við töpuðum ekki. Þetta er ástæðan fyrir því að enska úrvalsdeildin er sú besta. Þetta  var frábær leikur, sannarlega frábær," sagði Guardiola við Sky Sports eftir leikinn.

„Svona fór þetta. Úrslitin standa og við breytum því ekki. Ég veit hversu erfitt er að eiga við þessa leikmenn og þennan stjóra. Hver einasti leikur gegn þeim er gríðarleg áskorun fyrir okkur. Við sýndum á Stamford Bridge og í París, og aftur í dag, að við erum með frábært lið. Þegar við töpum eins og í París og gerum jafntefli eins og í dag er það allt í lagi. Ég vona að við höldum svona áfram og leikmennirnir komi heilir til baka úr landsleikjahléinu," sagði hann ennfremur.

Spurður hvort James Milner hefði átt að fá sitt seinna gula spjald fyrir brotið á Bernardo Silva á Anfield í dag svaraði hann: „Þetta var gult spjald, það er á hreinu. En þetta er Anfield og svona er Old Trafford. Í sömu aðstöðu hefði leikmaður City verið rekinn af velli. Þetta var of augljóst, hann átti að fá sitt annað gula spjald."

mbl.is