Þrenna á gamla heimavellinum – Burnley enn án sigurs

Joshua King fagnar fyrsta marki sínu á Goodison Park ásamt …
Joshua King fagnar fyrsta marki sínu á Goodison Park ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Joshua King skoraði þrennu fyrir Watford þegar liðið vann sinn þriðja leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á tímabilinu gegn Everton á Goodison Park í Liverpool í dag.

Leiknum lauk með 5:2-sigri Watford en Everton komst tvívegis yfir í leiknum með mörkum frá þeim Tom Davies og Richarlison.

King, sem er 29 ára gamall Norðmaður, gekk til liðs við Watford frá Everton en honum tókst ekki að skora mark í ellefu leikjum fyrir Everton á síðustu leiktíð.

Everton er með 14 stig í níunda sæti deildarinnar en Watford er í því fjórtánda með 10 stig.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður hjá Burnley á 78. mínútu þegar liðið gerði 2:2-jafntefli gegn Southampton á St. Mary's vellinum í Southampton.

Maxwel Cornet skoraði bæði mörk Burnley í leiknum en Valentino Livramento og Armando Broja skoruðu mörk Souhampton sem er í sextánda sætinu með 8 stig. 

Burnley bíður hins vegar ennþá eftir sínum fyrsta sigri í deildinni en liðið er í átjánda og þriðja neðsta sætinu með 4 stig.

Rodrigo bjargaði stigi fyrir Leeds þegar liðið fékk Wolves í heimsókn á Elland Road í Leeds en hann skoraði jöfnunarmark Leedsara í uppbótartíma eftir að Hee-Chan Hwang hafði komið Wolves yfir á 10. mínútu.

Wolves er með 13 stig í tíunda sætinu á meðan Leeds er með 7 stig í því sautjánda en liðið hefur einungis unnið einn leik á tímabilinu til þessa.

Þá skoraði Callum Wilson jöfnunarmark Newcastle á 65. mínútu í 1:1-jafntefli liðsins gegn Crystal Palace á Selhurst Park í London eftir að Christian Benteke hafði komið Crystal Palace yfir á 56. mínútu.

Crystal Palace er með 9 stig í fimmtánda sætinu en Newcastle er með 4 stig í nítjánda og næst neðsta sætinu.

Maxwel Cornet skoraði bæði mörk Burnley.
Maxwel Cornet skoraði bæði mörk Burnley. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert