Liverpool og City sigurstranglegri en Chelsea

Andy Townsend, fyrrverandi leikmaður Aston Villa, Middlesbrough og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, telur að þrátt fyrir að Chelsea sé á toppi deildarinnar eftir næsta óaðfinnanlega spilamennsku hingað til séu Liverpool og Manchester City ögn betri.

„Jólin eru handan við hornið og ef þú ert á toppnum á þeim tímapunkti ertu að gera fjölda hluta rétt. Ég myndi samt ekki segja að þeir séu sigurstranglegastir, ég er ennþá með Liverpool og City hlið við hlið alveg á toppnum en Chelsea mjög nálægt þeim,“ sagði Townsend.

Í spilaranum hér að ofan ræðir hann nánar um gengi Chelsea á tímabilinu, þar sem Thomas Tuchel knattspyrnustjóri hefur unnið frábært starf.

Chelsea fær Manchester United í heimsókn í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni klukkan 16:30 í dag. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport og hefst upphitun klukkan 16.

mbl.is