Coutinho klár í slaginn gegn United

Philippe Coutinho í leik með Barcelona í síðasta mánuði.
Philippe Coutinho í leik með Barcelona í síðasta mánuði. AFP

Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho er búinn að standast læknisskoðun hjá enska knattspyrnufélaginu Aston Villa og getur því leikið með liðinu gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.

United tekur á móti Villa á Old Trafford í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld en Coutinho getur ekki tekið þátt í þeim leik þar sem hann er að ganga frá pappírsvinnu í Frakklandi í tengslum við atvinnuleyfi sitt á Bretlandseyjum.

Hann mun ferðast til Englands á miðvikudag og mæta á sína fyrstu æfingu sama dag. Því verður hann klár í slaginn þegar liðin mætast aftur á Villa Park næstkomandi laugardag, en þá í deildinni.

Coutinho hefur verið í aukahlutverki hjá Barcelona undanfarið og féllst í upphafi ársins að endurnýja kynni sín við fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Liverpool, Steven Gerrard knattspyrnustjóra Villa, með það fyrir augum að fá loks að spila reglulega.

Kemur hann á láni frá Barcelona út tímabilið og Villa getur svo keypt hann á 33 milljónir punda að því loknu.

mbl.is