Að láta tuðruna fljúga

Létt yfir Klopp á æfingu hjá Liverpool á dögunum.
Létt yfir Klopp á æfingu hjá Liverpool á dögunum. AFP/Lindsey PARNABY

„Ég veit ekki um þýsk/hollenska samvinnu sem gengur betur annars staðar. Ég er raunar sannfærður um að hún er best hjá okkur,“ segir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool,  hlæjandi í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en í hans nánasta þjálfarateymi eru tveir Hollendingar, Pepijn Lijnders og John Achterberg, og einn Þjóðverji, Peter Krawietz.

Þess utan segir Klopp sparkmenninguna í þessum tveimur löndum algjöra kjörblöndu. „Þetta fellur hvort að öðru eins og flís við rass. Þegar maður veltir því fyrir sér þá hefur Þýskaland unnið fjölmarga titla gegnum árin en Holland alltaf spilað skemmtilegri fótbolta. Við grínumst stundum með þetta og segjum að ég sé öryggisprófessorinn, þar sem allt hverfist um vernd og að verjast, meðan allt annað snýst um að láta tuðruna fljúga, samkvæmt hollensku heimspekinni. Auðvitað er þetta grín en eigi að síður alls ekki fjarri sannleikanum.“

Mikill aðdáandi Ajax-stílsins

Klopp viðurkennir að hann hafi alltaf heillast af hinum sígilda hollenska leikstíl. „Ég er gríðarlegur aðdáandi hollenskrar knattspyrnu, sérstaklega hugmyndafræðinnar hjá Ajax, sem allir dáðust að í gamla daga og var upptakturinn að Barcaveldinu. Sonur minn ann þessu líka og ef þú spyrð hann hvaða lið hann hafi stutt sem strákur þá myndi hann hvorki nefna Mainz né Dortmund, heldur Ajax. Enginn mátti missa af þeim. Þegar horft er til stærðar landsins þá er ótrúlegt hvílíkan fjölda heimsklassa leikmanna og þjálfara Holland hefur skaffað. Það hefur alltaf heillað mig.“

Gerd Müller með heimsbikarinn eftir sigurinn á Hollendingum 1974.
Gerd Müller með heimsbikarinn eftir sigurinn á Hollendingum 1974. AFP


Klopp kynntist þýskum og hollenskum fótbolta fyrst á HM 1974, enda þótt hann hafi ekki brotið taktíkina til mergjar fyrr en síðar. „Það mót er mín fyrsta fótboltaminning. Ég var sjö ára og á þeim aldri er maður ekki mikið að velta fyrir sér hvað hin liðin eru að gera, styður bara sína þjóð. Ég sé Gerd Müller ljóslifandi fyrir mér á hnjánum eftir leikinn við hornfánann hægra megin á vellinum.“


Reynir að skilja hvernig knattspyrnan þróaðist

Mörgum árum síðar greindi Klopp leikstíl liðanna, þegar hann horfði á upptökur frá mótinu 1974. Þar var margt í mörgu. „Þetta var mjög sterkt mót með mörgum framúrskarandi leikmönnum. Það var ef til vill ekki þeirra ár en Brasilíumenn voru geggjaðir. Svíar voru sterkir og Austur-Þýskaland stóð líka fyrir sínu.“

Jürgen Klopp og Arthur Renard ræða málin á æfingasvæði Liverpool.
Jürgen Klopp og Arthur Renard ræða málin á æfingasvæði Liverpool. Mynd/Tony Barrett - Liverpool FC


Um leið og hann horfir til fortíðar fær hann hugmynd um nútíðina, útskýrir Klopp. „Maður reynir einfaldlega að skilja hvernig knattspyrnan þróaðist, áður en maður kom að henni sjálfur. Skoðar hvernig hún var leikin þá og ber saman við nútímann.“

Hefðum getað tapað

Með því að horfa aftur á úrslitaleikinn frá HM 1974 áttaði hann sig á því hvílík áhrif bæði lið hafa haft allar götur síðan. „Ég hef séð þennan leik fimm eða sex sinnum. Þýska liðið var gríðarsterkt á þessum tíma, við vorum með heimsklassa leikmenn. En hollenska liðið var líka ótrúlegt, alveg fáránlega gott. Við hefðum hæglega getað tapað úrslitaleiknum,“ segir hann hlæjandi. „En við unnum samt, líklega hafði það mest með andrúmsloftið á leikvanginum að gera. Og svo vorum við auðvitað með Gerd Müller. Margir hrifust af fótboltanum sem hollenska liðið lék en það vann samt ekki.“

Johan Cruyff í leik gegn Úrúgvæ á HM í Vestur-Þýsklandi …
Johan Cruyff í leik gegn Úrúgvæ á HM í Vestur-Þýsklandi 1974. AFP


Eigi að síður hefur hollenska liðið frá sjöunni haft áhrif á margar kynslóðir fram á þennan dag. Litið er á leikmennina sem brautryðjendur, með Johan Cruyff í broddi fylkingar. „Það hefði verið dásamlegt að hitta Johan Cruyff, þó ekki væri nema einu sinni. Hann var gríðarlegur áhrifavaldur á þessum tíma, með alsparkinu [h. totaalvoetbal] og öllu því. Það er snar þáttur í sparksögunni, þegar horft er til áhrifanna sem það hafði.“

Rætt er við Jürgen Klopp á tveimur opnum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »