Manchester City eða Liverpool meistari?

Jürgen Klopp og Pep Guardiola verða báðir á heimavelli í …
Jürgen Klopp og Pep Guardiola verða báðir á heimavelli í dag og annar þeirra fagnar enska meistaratitlinum. AFP/Paul Ellis

Í dag ræðst hvort það verður Manchester City eða Liverpool sem hreppir enska meistaratitilinn árið 2022.

Lokaumferð úrvalsdeildarinnar er öll leikin á sama tíma, klukkan 15 að íslenskum tíma, og fyrir hana er Manchester City með 90 stig og Liverpool 89 eftir ótrúlegt einvígi liðanna undanfarna mánuði.

Manchester City er með titilinn í sínum höndum en vinni liðið heimaleikinn gegn Aston Villa, sem er í 14. sæti deildarinnar og hefur að litlu að keppa, verður félagið meistari í fjórða sinn á fimm árum og í sjötta sinn síðan 2012.

Liverpool þarf að treysta á að Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði liðsins og núverandi stjóri Aston Villa, komi til hjálpar og nái stigi á Etihad-leikvanginum.

Ef það gerist, getur Liverpool tryggt sér sinn annan meistaratitil á þremur árum með því að sigra Wolves á Anfield. Eins myndi Liverpool jafna við Manchester United í fjölda  titla frá upphafi en United hefur orðið 20 sinnum enskur meistari, oftast allra, og Liverpool 19 sinnum.

Wolves er í áttunda sæti og á ekki lengur möguleika á Evrópusæti, en gæti dottið niður í tíunda sæti með tapi.

mbl.is