Stefnir í harða baráttu um skotmark Liverpool

Jude Bellingham er eftirsóttur.
Jude Bellingham er eftirsóttur. AFP/Uwe Kraft

Knattspyrnumaðurinn Jude Bellingham er afar eftirsóttur þessa dagana en hann var sterklega orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool í sumar.

Bellingham, sem er einungis 19 ára gamall, er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi en hann gekk til liðs við þýska félagið frá Birmingham árið 2020.

Miðjumaðurinn er samingsbundinn Dortmund til sumarsins 2025 en spænski miðillinn AS greinir frá því að Chelsea, Manchester City og Manchester United hafi öll áhuga á leikmanninum.

Liverpool reyndi að fá leikmanninn til Englands í sumar en það gekk ekki eftir og því mun enska félagið leggja allt kapp á að kaupa Bellingham næsta sumar.

Ljóst er að Liverpool mun fá mikla samkeppni um enska landsliðsmanninn sem á að baki 98 leiki fyrir Dortmund þar sem hann hefur skorað 12 mörk og lagt upp önnur 18.

mbl.is