Sjúkraþjálfari City fylgir Haaland hvert fótmál

Erling Braut Haaland hefur byrjað tímabilið með látum.
Erling Braut Haaland hefur byrjað tímabilið með látum. AFP/Geoff Caddick

Mario Pafundi, sjúkraþjálfari hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester City, er mættur í landsliðsverkefni með norska landsliðinu þar sem hans hlutverk verður að fylgjast náið með Erling Braut Haaland.

Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Noregur undirbýr sig nú fyrir tvo leiki í Þjóðadeild UEFA, gegn Slóveníu og Serbíu.

Haaland var að glíma við meiðsli á síðustu leiktíð þegar hann var samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi og Pep Guardiola, stjóri City, vill gera allt til þess að Haaland haldist heill á komandi keppnistímabili.

Ståle Solbakken, þjálfari norska landsliðsins, staðfesti að Pafundi yrði með norska hópnum á næstu dögum en hann hefur starfað hjá City frá því Guardiola tók við stjórnartaumunum hjá félaginu árið 2016.

Haaland hefur byrjað tímabilið af miklum krafti og skorað 14 mörk í fyrstu leikjum tímabilsins en City borgaði Dortmund 51 milljón punda fyrir norska framherjann sem er 22 ára gamall.

mbl.is