Óvirðing við kvennaboltann og kærustuna mína

Alisha Lehmann og Douglas Luiz eru bæði samningsbundin Aston Villa …
Alisha Lehmann og Douglas Luiz eru bæði samningsbundin Aston Villa á Englandi. Ljósmynd/@alishalehmann7

Knattspyrnumaðurinn Douglas Luiz var afar ósáttur með brasilíska fjölmiðlamanninn Milton Neves eftir að Neves deildi myndbandi af kærustu leikmannsins á samfélagsmiðlinum Twitter í gær.

Luiz er í sambandi með Alishu Lehmann en þau eru bæði samningsbundin enska knattspyrnufélaginu Aston Villa. Þá á Lehmann að baki 34 A-landsleiki fyrir Sviss og Luiz hefur leikið 9 A-landsleiki fyrir Brasilíu.

Í færslu Neves, sem er 71 árs gamall, sést Lehmann fagna marki með því að hoppa og snúa sér við í loftinu og spyr brasilíski sjónvarpsmaðurinn hvort einhver hafi tekið eftir númerinu aftan á búningi Lehmann.

„Þú ert gamall karl sem hefur fjallað of lengi um fótbolta,“ tísti Luiz.

„Myndbandið sem þú varst að birta er óvirðing við bæði kvennaboltann og leikmanninn sem er kærastan mín.

Þú veist ekkert hvað virðing er,“ bætti Luiz við en Neves hefur nú eytt færslu sinni af Twitter.

mbl.is