Leeds og Leicester áfram í bikarnum

Leikmenn Leeds fagna því þegar Jack Harrison, annar frá vinstri, …
Leikmenn Leeds fagna því þegar Jack Harrison, annar frá vinstri, kom liðinu yfir í dag. AFP/Peter Powell

Ensku úrvalsdeildarfélögin Leeds og Leicester tryggðu sér í dag sæti í fimmtu umferð enska bikarsins í knattspyrnu með sigrum á liðum í neðri deildum Englands.

Leeds heimsótti C-deildarliðið Accrington Stanley og vann góðan sigur, 3:1. Jack Harrison kom Leeds yfir í fyrri hálfleik og þeir Junior Firpo og Luis Sinisterra bættu við mörkum í síðari hálfleik. Leslie Adekoya minnkaði muninn fyrir Accrington þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en nær komst liðið ekki.

Leicester vann útisigur á D-deildarliði Walsall, 1:0. Í byrjunarliði Leicester voru flestir lykilmenn liðsins og var því bara eins marks sigur frekar óvæntur. Það var Kelechi Iheanacho sem skoraði sigurmarkið á 68. mínútu.

Leeds og Leicester verða því bæði í pottinum þegar dregið verður í fimmtu umferðina. Manchester City verður einnig þar en liðið tryggði sig áfram með sigri á Arsenal í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert