Mál Greenwoods látið niður falla

Mason Greenwood er frjáls ferða sinna.
Mason Greenwood er frjáls ferða sinna. AFP

Sakamál knattspyrnumannsins Masons Greenwoods, sem var í byrjun árs ákærður fyrir lík­ams­árás, yf­ir­gang og til­raun til nauðgun­ar gagn­vart fyrr­ver­andi unn­ustu sinni, hefur verið látið niður falla.

Er hann því laus allra mála og frjáls ferða sinna, en hann átti að mæta fyrir dóm í nóvember á þessu ári vegna málsins.

Lögreglan í Manchester greindi frá í yfirlýsingu í dag að mál hins 21 árs gamla Greenwood hafi verið látið niður falla, án þess þó að greina frá hvers vegna.

Greenwood var leikmaður Manchester United þegar hann var handtekinn í janúar á síðasta ári, eftir að unnusta hann birti myndir og myndbönd af meintum brotum Greenwoods.

Hann hefur hvorki æft né leikið með félaginu síðan, en sóknarmaðurinn lék síðast gegn West Ham 22. janúar á síðasta ári. Var hann settur í bann hjá félaginu í kjölfar handtökunnar og fyrirtæki á borð við Nike slitu samstarfi við leikmanninn.

mbl.is