Framkvæmdastjóri BBC biður skattgreiðendur afsökunar

Tim Davie, framkvæmdastjóri BBC.
Tim Davie, framkvæmdastjóri BBC. AFP.

Tim Davie, framkvæmdastjóri BBC, hefur beðið skattgreiðendur afsökunar á skertri dagskrá stöðvarinnar í gær. 

Gary Lineker, þáttastjórnandi Match of the Day, var á föstudaginn sendur í tímabundið leyfi fyrir að gagnrýna stefnu breskra stjórnvalda í málefnum flóttafólks. Eftir það gáfu sérfræðingar þáttarins, og fleiri starfsmenn stöðvarinnar, það út að þau myndu ekki mæta í gær til að sýna Lineker stuðning.

BBC þurfti því að skipta út hinum ýmsum þáttum tengdum enska boltanum sem áttu að vera á dagskrá í gær með gömlu efni og Match of the Day var styttur niður í 20 mínútur án þáttarstjórnanda og sérfræðinga.

Á því hefur Davie beðið skattgreiðendur afsökunar en BBC er ríkisrekin stofnun. Hann sagði einnig að gærdagurinn hafi verið mjög erfiður.

„Í mínum augum er lausnin í þessu máli að fá Gary Lineker aftur því saman erum við að gefa áhorfendum umfjöllun í hæsta klassa um enska boltann. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki getað gert það í dag.“

Þá tók Davie það fram að það kæmi alls ekki til greina að hann myndi segja af sér en viðurkenndi að þetta hafi verið erfitt fyrir BBC.

Í gærkvöldi tjáði Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sig um málið. 

„Sem forsætisráðherra verð ég alltaf að gera það sem ég tel að sé réttast og á sama tíma að bera virðingu fyrir því að það verða aldrei allir sammála því. Þess vegna hef ég verið svona í skýr í stefnu okkar í málum flóttafólks.

Gary Lineker var stórkostlegur knattspyrnumaður og er hæfileikaríkur sjónvarpsmaður. Ég vona að mál hans og BBC leysist sem allra fyrst, en þetta er mál sem þau þurfa að glíma við, ekki stjórnvöld.“

mbl.is