Rashford og Mount draga sig úr enska hópnum

Marcus Rashford tekur ekki þátt í verkefni enska landsliðsins.
Marcus Rashford tekur ekki þátt í verkefni enska landsliðsins. AFP/Cristina Quicler

Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, og Mason Mount, miðjumaður Chelsea hafa neyðst til þess að draga sig úr enska landsliðshópnum fyrir fyrstu leiki liðsins í undankeppni EM 2024 í knattspyrnu í vikunni.

Rashford fékk högg í 3:1-sigri Man. United á Fulham í ensku bikarkeppninni í gær og varð fyrir smávægilegum meiðslum af þeim sökum.

Mount hefur verið meiddur undanfarinn mánuð og nú er ljóst að hann verður ekki búinn að jafna sig á meiðslum á grindarbotni í tæka tíð fyrir leiki Englands gegn Ítalíu ytra á fimmtudag og Úkraínu á Wembley-leikvanginum þremur dögum síðar.

Áður hafði Nick Pope, markvörður Newcastle, dregið sig úr hópnum og Fraser Forster hjá Tottenham Hotspur verið kallaður inn í hans stað.

Engir leikmenn verða hins vegar kallaðir inn í enska hópinn vegna meiðsla Rashfords og Mounts.

mbl.is