Mikil stemning var í rafíþróttahöllinni Arena síðustu helgi þegar Fylkir átti glæstan sigur gegn Kórdrengjum í úrslitaleiknum og vann með því deildina taplaust, en þetta var í fyrsta skiptið sem keppt var undir merkjum Fylkis í Dota 2.
Fylkir vann úrslitaleikinn gegn Kórdrengjum með þriggja stiga mun, en þeir unnu leikinn 3:0.
„Þetta voru mjög fínir leikir, miserfiðir og við lærðum mjög mikið af þeim, en kannski lærðum við mest um okkur sjálfa,“ segir Róbert Arnar „Consquence“ í samtali við mbl.is.
Þá segja liðsmenn Fylkis að lykilatriðið á mótinu hafi verið traust, og var mottóið þeirra yfir mótið einmitt að treysta.
„Við ætluðum að treysta hvorum öðrum. Hvort sem það var að elta eða bakka, og það svínvirkaði,“ segir Aleksander Mojsa „Mojsla“ í samtali við mbl.is og bætir við að í upphafi hafi þeir lagt mikla áherslu á að læra á hvorn annan, læra að spila saman.
„Við vissum bara hvað við ætluðum að gera, ef við ætluðum inn þá fórum við inn. Það var bara traust.“
Ljóst er að liðsheildin hafi ekki verið byggð á sandi þar sem hún er orðin mjög sterk, en vert er að nefna að Kórdrengir báru Fylki gott orð og þá sérstaklega fyrir liðsheildina sem og samræmingu milli leikmanna.
„Það eru sterkir persónuleikar í þessu liði og mér finnst þetta magnað,“ segir Sigurður Bjarki Haraldsson, liðsstjóri Dota 2-liðs Fylkis og yfirþjálfari rafíþróttadeildar Fylkis, í samtali við mbl.is.
„Við erum allavega 100% að fara að spila meira saman og vonandi sjáum við einhver fleiri tækifæri fyrir okkur í framtíðinni,“ segir Aleksander.
Mjög margir nýliðar tóku þátt í deildinni á tímabilinu og ber það merki um vöxt Dota 2-samfélagsins á Íslandi. En líkt og greint var frá í upphafi tímabils þá hafa aldrei fleiri nýliðar tekið þátt í deildinni. Á sama tíma hóf fyrirtæið Kraftvélar að styrkja deildina og með því jókst upphæð verðlaunafjár til muna, sem hugsanlega hefur veitt deildinni aukinn kraft.
Meðal leikmanna í Fylki er ein skærasta vonarstjarna Íslands, Atli Snær „Ic3Fog“ en hann er aðeins þrettán ára gamall og hefur verið að ryðja sér til rúms í keppnissenunni hér á landi.
Þá binda margir vonir sínar við að hann haldi áfram á því flugi sem hann er á þar sem hann er svo efnilegur að hann gæti náð góðum árangri erlendis, í stærri og enn meira krefjandi senu.
Á sama tíma gæti hann verið hvatning fyrir yngri leikmenn að prófa leikinn þar sem lítið er um unga leikmenn í Dota 2 á Íslandi. Má því segja að framtíð Dota 2 á Íslandi sé að hluta til í höndum Atla.
Á einum tímapunkti í úrslitunum var útlitið mjög svart fyrir Fylki og voru þeir næstum því búnir að tapa einum leik. Þá sá Atli Snær sér slag á borði og í raun bjargaði leiknum ásamt Aleksander.
„Það var einn leikur sem við vorum næstum því búnir að tapa, en ég og Atli héldum honum enn þá á lífi er ég 99% viss um. Við vorum næstum því búnir að drepa alla og þeir áttu ekki buybacks, svo þeir gátu ekki keypt sig til baka. Þá öskrar Atli, af því hann var dauður, hey við getum bara endað leikinn!“
Var það eitthvað sem hinir leikmenn Fylkis höfðu ekki áttað sig á, en þeir voru í hálfgerðri sigurvímu yfir því að hafa náð að drepa svo marga í hinu liðinu. Hugmynd Atla varð til þess að Fylkir bjargaði leiknum og bar í kjölfarið sigur af hólmi.
Að lokum senda leikmenn Fylkis sérstakar þakkir til Birtu, Flemmings, Kraftvéla og leikmannsins Chromium í liðinu Chromi and the rest.
„Chromium fær sérstakt „shoutout“ af því hann er búinn að standa sig vel, er æðislegur og bara ótrúlega góður leikmaður.“