Þota Alonso rak væng í hús en hann sakaði ekki

Alonso var á setri Briatore í Kenýa um áramótin.
Alonso var á setri Briatore í Kenýa um áramótin. ap

Fernando Alonso, fyrrverandi heimsmeistari í formúlu-1, slapp ómeiddur og einnig fylgdarlið hans, er einkaþota, sem hann var á ferð í, rakst utan í hús á flugvelli í Kenýa.

Þotan rak væng í bygginguna og skemmdist svo hann og kona hans urðu að ferðast síðar með annarri þotu til Evrópu. Þau dvöldust um áramótin á setri Flavio Briatore liðsstjóra Renault í Kenýa. 

Talsmaður Renault staðfesti í dag, að atvikið hafi átt sér stað í gær og það fyrir flugtak. "Það er allt í lagi með Fernando og fjölskylduhans. Þau fljúga til Evrópu í dag. Þetta er ekki eins alvarlegt og látið hefur verið í veðri vaka," sagði talsmaðurinn við vefsetrið autosport.com.

Umboðsmaður Alonso, Luis Garcia Abad, gerir enn minna úr atvikinu og segir ökuþórinn ekki einu sinni hafa verið um borð í þotunni. "Svo virðist sem þotan hafi orðið fyrir skakkaföllum þegar verið var að leggja henni. Fernando var þá ekki í henni, og þetta telst ekki einu sinni vera flugóhapp," sagði hann við fréttastofuna AP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert