Bruno Senna svekktur

Bruno Senna stefnir á keppni í formúlu-1.
Bruno Senna stefnir á keppni í formúlu-1.

Bruno Senna segist svekktur yfir því að hafa verið sniðgenginn við ráðningu annars ökuþórs liðsins sem tekur við af Honda. Liðið ákvað að taka landa hans Rubens Barrichello fram yfir Senna.

Senna er systursonur heimsmeistarans fyrrverandi, Ayrton Senna. Hann var fyrir skömmu í sætismátun í stöðvum liðsins í Brackley. Stjórnendur liðsins ákváðu hins vegar um síðir að treysta fremur á hinn gamalreynda Barrichello sem ekið hefur fyrir það undanfarin ár og þekkir því vel til verka hjá liðinu.

Senna segir aumt að hafa misst af tækifærinu til að keppa í formúlu-1. Í voninni um að komast þar að hefur hann hafnað tilboðum um frekari keppni í GP1-mótunum, segist ekkert hafa þangað lengur að sækja.

Þá segir hann leitt hversu lengi Hondaliðið var að taka afstöðu því fyrir vikið væri hann búinn að missa af álitlegum möguleikum á vettvangi formúlunnar.

Hann segist engu að síður bæði skilja og virða ákvörðun Brawn um að nýta sér fremur reynslu og þekkingu Barrichello. Útlit er fyrir að Senna fari til keppni í DTM-mótunum í Þýskalandi fyrir Mercedes-Benz.

Bruno Senna við reynsluakstur hjá Honda í fyrrahaust.
Bruno Senna við reynsluakstur hjá Honda í fyrrahaust. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina