Keppir í Formúlu 1 en fékk bílpróf í dag

Max Verstappen.
Max Verstappen. AFP

Það er stór dagur fyrir hinn átján ára Max Verstappen, sem fagnar átján ára afmælinu sínu í dag. Hann stóðst nefnilega bílprófið í fyrstu tilraun og má nú keyra löglega um í heimalandi sínu, Belgíu, sem og í Hollandi þar sem hann nú býr.

Þetta væri svo sem ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Verstappen þessi er ökumaður Toro Rosso í Formúlu 1 kappakstrinum, á þar að baki fjórtán keppnir og því vanur að vera undir stýri á bílum sem geta náð rúmlega tvöhundruð kílómetra hraða. Þrátt fyrir það viðurkenndi drengurinn að hafa verið örlítið stressaður í ökuprófinu.

„Þetta er mikill léttir, ég var smá stressaður að gera mistök en prófið gekk vel,“ sagði Verstappen, sem keppti í Japanska kappakstrinum um síðustu helgi og endaði þar í níunda sæti. En hann er nú löglegur á götum heimalandsins og má nú loks einnig fá sér sopa af kampavíninu sem flæðir á verðlaunapöllum Formúlu 1, en þangað hefur hann þó ekki náð ennþá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert