Mercedesmenn drottnuðu

Ökumenn Mercedesliðsins réðu ferðinni á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Barcelona en þar fer Spánarkappaksturinn fram á sunnudag. Bilanir eltu heimamanninn Fernando Alons hjá McLaren og Sebastian Vettel hjá Ferrari.

Lewis Hamilton var 29 þúsundustu úr sekúndu fljótari með hringinn en liðsfélaginn Valtteri Bottas. Kimi Räikkönen var um 0,9 sekúndum lengur í förum og Vettel tæplega 1,1 sekúndu. Varð hann að stöðva bíl sinn á útleið úr bílskúrareininni og því var fljótlegt að ýta honum heim í bílskúr til viðgerðar.

Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull áttu fimmta og sjötta besta hringinn en voru 1,2 og 1,5 sekúndur lengur með hringinn en Hamilton. Talsvert tímabil var svo í næstu menn, en í sætum sjö til tíu urði Kevin Magnussen og Romain Grosjean hjá Haas, Nico Hülkenberg hjá Renault og Carlos Sainz hjá Toro Rosso. Var Sainz 2,5 sekúndum lengur með hringinn en Hamilton, sem er óheyrilega mikill munur.

mbl.is