Vélin sekúndu betri

Liðsstjóri McLaren, Eric Boullier.
Liðsstjóri McLaren, Eric Boullier. mbl.is/afp

McLarenstjórinn Eric Boullier segir að liðið fái einnar sekúndu forskot á hring með því einu að hafa skipt af Hondavél yfir á vélar frá Renault við lok síðasta keppnistímabils.

McLaren missti þolinmæðina eftir þrjú mögur ár með Honda og leitaði í smiðju franska bílsmiðsins Renault.

„Vélarnar eru ólíkar að lögun og útfærslu  og því urðum við að endurhanna afturenda keppnisbílsins. Það er allt að baki og við erum á réttri braut,“ segir Boullier við franska íþróttadagblaðið L'Equipe.

Boullier segir samskipti við Renault auðveldari en lið hans hafi oft átt erfitt með að laga sig að sérstakri japanskri menningu í mótorsporti.

Miklar væntingar eru gerðar samstarfs McLaren-Renault en Bouiller segir of snemmt að spá sigri og titlum. „Eftir að við mötuðum bílhermi okkar á  vélargögnum frá Renault uppgötvuðum við að með því einu að skipta um vél græddum við mikinn brautartíma,“ segir Boullier.  

Er á hann var gengið um að útskýra þetta betur og segja hver hraðamunurinn hafi verið, svaraði hann: „Ein sekúnda“.

mbl.is