2019 vængur prófaður

Við bílprófanir í Hungaroring við Búdapest í gær, tveimur dögum eftir ungverska kappaksturinn, brugðu a.m.k. tvö liðanna 2019 framvængnum undir bíla sína.

Nýi vængurinn er þónokkuð frábrugðinn núverandi væng og er tilgangurinn að draga úr vængpressu bílana til að auka á keppnina í formúlu-1 og framúrakstur.

Framtíðarvængurinn var undir bílum Force India og Williams við reynsluaksturinn. Hann er mun einfaldari að gerð en núverandi vængur og er ætlað að gera ökumönnum kleift að keppa í návígi. 

Núverandi vængur er flókinn að allri uppbyggingu og hafa liðin talsvert svigrúm við hönnunina. Svo verður ekki um 2019-vænginn sem verður meira og minna staðlaður, þ.e. eins á öllum bílum. Áberandi og ósmekklegar vængendaplötur og flapsar munu hverfa.

Nýi vængurinn verður 20 sentímetrum breiðari og 2,5 sentímetrum dýpri, hvort tveggja gefur von um að návígi, jafnvel langvinn, verði reglan í keppni. Mun loftflæði yfir hann ekki bitna  eins mikið á getu bíls sem á eftir kemur eins og nú.

Búast má við að fleiri lið prófi brátt sína útgáfu af vængnum nýja til að afla sér sem mestra og bestra upplýsinga um virkni hans.

mbl.is