„Bull“ að Wolff hringi í Verstappen

Verstappen (t.v.) og Wolff á mótsstað.
Verstappen (t.v.) og Wolff á mótsstað.

Fregnir hafa farið af  því að Mercedesstjórinn Toto Wolff hafi „ítrekað“ átt í samskiptum við Max Verstappen hjá Red Bull og reynt að tala hann á sitt band.

Einn æðsti stjórnandi Red Bull, Helmut Marko, hélt þessu fram í samtali við tímaritið Auto Bild. „Toto Wolff hringir ítrekað í hann og pabba hans og hefur gert það mánuðum saman.

Ég held samt ró minni, árangursákvæði í samningi Max ættu að duga og honum líður vel hjá okkur. Getum við lagt honum til bíl er duga ætti í titilslag hef ég engar áhyggjur.“

Jos Verstappen ber þetta til baka og segir að Toto Wolff hafi aldrei hringt í son sinn. Í samtali við dagblaðið De Telegraaf segir Verstappen eldri: „Þetta er þvaður. Toto hefur aldrei hringt í Max. Ég held hann hafi ekki einu sinni símanúmerið. Ég tala stundum við Toto, það er allt of sumt. Við erum mjög ánægðir hjá Red Bull og samstarfið við Honda. Saman vinnum við að því að láta drauma rætast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert