Vettel fljótastur

Sebastian Vettel klár til aksturs í bílskúr Ferrari í Sjanghæ …
Sebastian Vettel klár til aksturs í bílskúr Ferrari í Sjanghæ í morgun. AFP

Sebastian Vettel ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Sjanghæ í Kína. Hann mun vart njóta þess síðar á helginni því skipta þurfti um íhluti í vél hans eftir æfinguna.

Lewis Hamilton setti næstbesta tímann en var rúmlega 0,2 sekúndum lengur í förum. Þriðja besta tímann átti liðsfélagi  Vettels, Charles Leclerc, sem var aðeins 49 þúsundustu úr sekúndu  lengur í förum en Hamilton.

Í sætum fjögur og fimm á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar urðu Max Verstappen á Red Bull og Valtteri Bottas á Mercedes.

Daniel Ricciardo á Renault átti sjötta besta tímann og varð næstur á  undan arftaka sínum hjá Red Bull, Pierre Gasly. Var Ricciardo 1,3 sekúndum lengur í förum en Vettel.

Daniil Kvyat á  Toro Rosso varð áttundi, Lance Stroll á Racing Point  níundi og Romain Grosjean á Haas tíundi, en hann varð svo aðeins 10 þúsundustu úr sekúndu á undan liðsfélaga sínum,  Kevin Magnussen. 

Antonio Giovinazzi ók aldrei tímahring á æfingunni vegna vélarbilunar í Alfa Romeo bíl hans. 

Það var svalt í Kína er Ferrarimenn skoðuðu brautina fyrir …
Það var svalt í Kína er Ferrarimenn skoðuðu brautina fyrir æfinguna í morgun. Sebastian Vettel er hér annar frá hægri og Charles Leclerc annar frá vinstri. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert