Vettel vann en Hamilton fékk sigurinn

Sebastian Vettel færir merki númer 2 að Mercedesbíl Hamiltons. Tók …
Sebastian Vettel færir merki númer 2 að Mercedesbíl Hamiltons. Tók hann svo skilti númer 1 og setti þar sem bíll hans hefði átt að standa. AFP

Hörkuspennandi kappakstri í Montreal lauk öðru vísi en flest virtist stefna í. Fór svo að Sebastian Vettel á Ferrari kom fyrstur á mark en í öðru sæti varð Lewis Hamilton á Mercedes og fékk hann sigurinn.

Vettel hóf keppni af ráspól og réði ferðinni allan tímann eða þar til 50 hringjum var lokið af 70. Gerði hann þá mistök í beygju, hafnaði á grasi innan beygjubríkarinnar og það var innkoma hans í brautina aftur sem honum var refsað fyrir með því að bætt var 5 sekúdum við lokatíma hans. Átti Hamilton í  engum erfiðleikum að halda sig nóggu nærri Vettel það sem eftir var til að hampa hinum gefna sigri.

Á margendurteknum sjónvarpsupptökum af atvikinu mátti segja að Vettel hafi haft nokkuð til síns máls er hann mótmælti úrskurðinum í talstöðinni á innhring. Kvað hann útilokað að hafa komið með einhverjum hætti inn en Hamilton renndi sér upp að hægri hlið hans er útleiðin var að lokast og varð að slá af til að forða árekstri.

Svo reiður var Vettel að hann rauk að verðlaunaafhendingu lokinni til vistarvera dómaranna og ætlaði að eiga orðastað við þá. Mætti  hann ekki með bíl sinn í lokahöfn og þegar hann loks kom þangað sjálfur á leið á verðlaunapall skipti hann á spjöldum sem sett eru upp fyrir framan bílana til marks um röð þeirra. Setti hann númer 2 við bíl Hamiltons og skilti fyrsta bíls þar sem Ferrarifákurinn átti að vera. Var hann síðan stuttur í spuna við þul mótsins og strunsaði frá honum er hann var rétt byrjaður að spyrja hann út í atvik dagsins.

Við þessa atburði féll allt annað í kappaksturinn í skuggann. Í þriðja sæti í mark varð Charles Leclerc á Ferrari og fjórði varð Valtteri Bottas á Mercedes sem setti hraðasta hring mótsins með því að ná í glæný dekk inn í bíl skúr er þrír hringir voru eftir.

Í sætum fimm til tíu - í þessari röð urðu - Max Verstappen á Red Bull, Daniel Ricciardo á Renault, Nico Hülkenberg á Reault, Pierre Gasly á Red Bull, heimamaðurinn Lance Stroll á Racing Point og Daniil Kvyat á Toro Rosso í tíunda sæti.  

Þetta var sjöundi sigur Hamiltons í Montreal og sá fimmti á árinu. Með refsingu Vettels missti Ferrari af einstaklega góðum möguleika á að vinna sinn fyrsta mótssigur.

Næsti kappakstur í formúlu-1 fer fram í Pierre Ricard brautinni við Le Castellet, skammt upp af Miðjarðarhafsströnd Frakklands. 

Sebastian Vettel færir merki númer 2 að Mercedesbíl Hamiltons. Tók …
Sebastian Vettel færir merki númer 2 að Mercedesbíl Hamiltons. Tók hann svo skilti númer 1 og setti þar sem bíll hans hefði átt að standa. AFP
Sebastian Vettel tilfærir skilti bíls númer tvö og setur það …
Sebastian Vettel tilfærir skilti bíls númer tvö og setur það fyrir framan bíl Hamiltons. Tók hann svo skilti númer eitt og setti þangað sem bíll hans hefði átt að vera. AFP
Lewis Hamilton fagnar sigri í Montreal en að baki honum …
Lewis Hamilton fagnar sigri í Montreal en að baki honum er brúnin þykk á Sebastian Vettel. AFP
Sebastian Vettel slopinn frá hópnum rétt eftir ræsinguna í Montreal.
Sebastian Vettel slopinn frá hópnum rétt eftir ræsinguna í Montreal. AFP
Lewis Hamilton sagðist ekki vilja vinna sigur sem þann er …
Lewis Hamilton sagðist ekki vilja vinna sigur sem þann er hann hlaut með dómi í Montreal. AFP
Ferrarifákur Sebastians Vettel kom aldrei ío lokahöfn mótsins en hér …
Ferrarifákur Sebastians Vettel kom aldrei ío lokahöfn mótsins en hér er talan 1 fyrir framan stæði hans. Hafði hann sjálfur skipti á skiltum og setti númer 2 fyrir framan bíl Hamiltons og númer 1 þar sem Ferrari bíllinn hefði átt að vera. AFP
mbl.is