Vettel dæmdur úr leik

Bikarnum fyrir annað sætið í Búdapest hélt Vettel ekki lengi.
Bikarnum fyrir annað sætið í Búdapest hélt Vettel ekki lengi. AFP

Sebastian Vettel á Aston Martin naut ekki lengi annars sætisins í ungverska kappakstrinum þar sem hann var dæmdur úr leik fyrir óregluleg sýni úr bensíntanki bílsins.

Við keppnislok reyndist ónógt bensín eftir í tankinum en tæknireglur formúlunnar kveða á um að þar skuli vera minnst einn lítri eftir. Liðið kvaðst í góðri trú um að þar væri meira en eftirlitsmenn kappakstursins náðu eða minnst 1,44 lítrar, samkvæmt streymismæli vélarinnar.

Aðeins mældist bensínið sem eftir var 300 millilitrar. Fékk liðið mörg tækifæri við skoðun eftir keppni til að sýna fram á sitt mál en gafst upp á því að lokum þar sem ekkert meira af bensíni reyndist í pípunum.

Með brottvikningu Vettels færast aðrir ökumenn upp um eitt sæti hver eftir úrslitalistanum. Lewis Hamilton færðist upp í annað sæti og Carlos Sainz á Ferrari í það þriðja.

mbl.is