Sókn er besta vörnin

Hlynur Stefánsson renndi fyrir silung í Varmá í gær. </FONT
Hlynur Stefánsson renndi fyrir silung í Varmá í gær. Morgunblaðið/Kristinn  Æfingin skapar meistarann

Létt var yfir Hlyni Stefánssyni, fyrirliða ÍBV, á æfingu á Fylkisvellinum í gær. Æfing í einbeitingu vafðist eitthvað fyrir honum í fyrstu en hún þjappaði hópnum saman og allir sem einn sameinuðust í að leiðrétta miðvörðinn, sem hafði svo rétt fyrir sér eftir allt saman. "Það er mikill hugur í mönnum og allir jákvæðir. Við erum mjög ánægðir með að vera í þessari aðstöðu, að eygja möguleika á að ÍBV verði Íslandsmeistari annað árið í röð," sagði fyrirliðinn við Morgunblaðið. "Ég finn ekki fyrir mikilli pressu nema þeirri sem við setjum á okkur sjálfir. Við viljum vera bestir og ég trúi að við séum það. Allir heima vilja auðvitað að við séum alltaf í fremstu röð. Þannig er mórallinn í Vestmannaeyjum og í Vestmannaeyingum, hvað sem þeir taka sér fyrir hendur, og þetta hugarfar endurspeglast í fótboltaliðinu."
 Eyjamenn þekkja það vel að leika til úrslita eftir bikarúrslitaleiki undanfarin ár og bikarsigur ekki alls fyrir löngu. "Stemmningin er öðru vísi núna. Fyrir Leiftursleikinn í bikarúrslitunum höfðum við tapað í nokkur ár á undan og því var ákveðið óöryggi í hópnum, hugsunin um að tapa fjórða leiknum í röð truflaði okkur að nokkru leyti en við náðum að ýta henni frá okkur og sigra. Það er viss léttir, einn bikar er í höfn og hann tryggir félaginu áframhaldandi veru í Evrópukeppni, svo pressan er ekki eins mikil og ella."
 En KR hefur líka tryggt sér Evrópusæti að ári.
 "Já, en málið horfir öðru vísi við þar á bæ því biðin eftir titlinum hefur verið löng í Vesturbænum og KR-ingar vilja sigra ekki síður en við. Þeir hafa það framyfir okkur að leika á heimavelli en að sama skapi höfum við reynslu af úrslitaleikjum undanfarin ár framyfir þá."
 Hvað kemur til með að ráða úrslitum?
 "Dagsformið. Heppni. Ég á von á mjög jöfnum leik, að úrslitin ráðist á einu marki. Þetta verður gríðarleg stöðubarátta. Hér mætast liðin sem eru með sterkustu varnirnar í deildinni. Við höfum að vísu gert flest mörkin en þeir hafa fengið fæst á sig þannig að þetta verður mikil barátta um völdin og spennandi verður að sjá hvernig hún endar."
 Hlynur sagði að mikil tilhlökkun fylgdi því að leika til úrslita í Íslandsmótinu. "Við erum mjög ánægðir með að eiga fyrrnefnda möguleika, ekki eyðileggur þá ánægju ef okkur tekst ætlunarverkið og ég hlakka mikið til. Við berum fulla virðingu fyrir Atla Eðvaldssyni og KR-liðinu, sem hafa verið að gera góða hluti. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að við verðum að eiga toppleik til að hlutirnir gangi upp. Dagsskipunin verður sóknarleikur, við spilum til sigurs eins og alltaf - sókn er besta vörnin."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert